154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:27]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég verð að biðjast forláts á því að hafa ekki verið hér í þingsal þegar ég átti að fara að taka til máls þannig að ég gat ekki prentað út neitt og síðan þegar ég ætlaði að fara inn í tölvuna mína virkaði drifið ekki heldur. Ég er því frekar fátæklegur hér uppi í pontu en er samt hingað kominn til að fara yfir athugasemdir við þessa fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir og er til fimm ára. Ég verð því miður að segja að ég á frekar erfitt með að sjá að einhverjar stórvægilegar breytingar hafi átt sér stað á milli ára á þeirri fjármálaáætlun sem var lögð fram í fyrra og þeirri sem núna er verið að leggja fram. Við erum að sjá ríkissjóð rekinn með halla áfram. Eins og svo oft hefur komið fram er ríkissjóður rekinn með halla alveg til enda þessa kjörtímabils þannig að það voru aðeins tvö ár sem þessi ríkisstjórn rak ríkissjóð með jákvæðri afkomu, árin 2017 og 2018 og síðan strax á árinu 2019 sáum við rekstur ríkissjóðs verða neikvæðan. Á því ári tókumst við á við mikla vá og það urðu verulegar breytingar á mörgu, m.a. á rekstri sveitarfélaga á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi varð mikið í framhaldinu.

Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að reka ríkissjóð með jákvæðri afkomu frá árinu 2019 og miðað við þessa fjárhagsáætlun erum við að horfa á neikvæðan rekstur á ríkissjóði út árið 2027, eða í átta ár. Það er auðvitað talsvert afrek að reka ríkissjóð með neikvæðri afkomu allan þennan tíma. Ég hef skilning á því að í Covid hafi þurft að grípa til aðgerða og leggja í fjárútlát til að hreinlega halda fyrirtækjum á floti, gera þeim kleift að halda rekstri gangandi á einhvern hátt, sem margir gerðu svo frábærlega í faraldrinum. En í framhaldinu, þegar faraldrinum lauk, hefði maður svo reiknað með því að við myndum upplifa jákvæðan rekstur. Það hefur hins vegar ekki orðið, virðulegur forseti, að við sjáum jákvæðan rekstur á ríkissjóði.

Það sem vekur upp ugg hjá mér er að sjá töluna 49 milljarða í neikvæðri afkomu núna. Manni sýnist eins og það sé verið að gera ráð fyrir einhverjum afkomubætandi aðgerðum, eins og þetta er nefnt í frumvarpinu, en ég á erfitt með að átta mig á því hverjar þessar afkomubætandi aðgerðir eru. Það er alltaf verið að setja inn eitthvert aðhald og aðrar breytingar, eins og þarna er nefnt, m.a. upp á 25 milljarða sýnist mér, en það er aldrei nákvæmlega útskýrt í hverju það er fólgið. Á að draga úr þjónustu? Það eru margir sem óttast það þegar talað er um aðhald að þá sé verið að draga úr þjónustu. Oft geta að sjálfsögðu verið einhvers konar aðgerðir til að hafa þjónustuna hina sömu eða gera hana betri fyrir minni pening og ef slíkt er uppi á borðinu styð ég það að sjálfsögðu. En ég minnist þess líka að í Covid voru sveitarfélögin hvött til að halda áfram að djöflast og stoppa ekki og reyna að halda úti rekstri og fara í átaksverkefni og síðan vorum við skömmuð fyrir að vera með neikvæðan rekstur. Þetta var svolítið sérstakt á þessum tíma, fannst mér.

Mig langar að nefna, virðulegur forseti, það sem heitir kaupmáttur launa á samræmdan mælikvarða og glæruna um að hagur heimilanna sé svo frábær, ég man ekki hvernig þetta er orðað, og þetta gangi allt svo vel, staða heimilanna sé svo sterk af því að kaupmáttur hér sé langt umfram og sýndar einhverjar myndir sem eiga að staðfesta það. Þegar er verið að tala um kaupmátt þarna þá er þetta eitthvað sem heitir samræmdur kaupmáttur eða samræmd vísitala sem miðað er við. Þar erum við að fljúga fram úr mörgum þjóðum, m.a. þeim þjóðum sem eru teknar til samanburðar. En það er ekki verið að skoða kaupmátt miðað við vísitölu með húsnæðisliðnum inni. Ég er alveg viss um að þessi mynd myndi breytast verulega ef húsnæðisliðurinn væri tekinn inn í vegna þess að við erum að borga tvöfalt og þrefalt fyrir það fé sem við tökum að láni. Ef við berum saman kaupmátt heimila á Íslandi með húsnæðisliðnum er ég hræddur um að niðurstaðan verði allt önnur. Fyrir utan það að þarna er verið að bera saman kaupmátt á klukkustund og í lífskjarasamningunum var samið um vinnutímastyttingu. Það þýðir að kaupmáttur á klukkustund varð meiri í vinnutímastyttingunni þó að heildarlaunin hefðu ekki orðið meiri. Auðvitað er það kjarabót að stytta vinnutíma en það ruglar samanburðinn um unninn kaupmátt á klukkustund, vegna þess að heildarlaunin voru þau sömu en kaupmáttur á unna klukkustund varð meiri af því að fólk þurfti að vinna minna. Þannig að þessi samanburður er sérstakur, svo ekki sé meira sagt.

Að tala svo um að skuldir heimilanna séu hóflegar í samanburði við nágrannalöndin — jú, það er hægt að skoða það en þá spyr maður um kostnað af skuldum heimilanna hér samanborið við það sem er að gerast í nágrannalöndum. Er kostnaður heimilanna af því fé sem þau eru að fá lánað í fjármálafyrirtækjum sá sami og annars staðar? Nei, hann er það ekki. Hann er margfaldur. Skuldir heimilanna á Íslandi eru miklu dýrari fyrir heimilin hér heldur en annars staðar. Þetta er því ekki samanburðarhæft. Fyrir utan það að þetta er eitthvert meðaltal. Við erum hér með fullt af fólki sem skuldar lítið eða ekki neitt en svo erum við með aðra sem eru fyrir neðan meðaltalið og skulda jafnvel mikið. Ef það væri verið að skoða þá sem skulda en ekki meðaltalið, hver er staða þeirra sem skulda og eru þeir í sæmilegri stöðu eða ekki? Ég þori að fullyrða að þeir sem skulda á Íslandi eru flestir í vondri stöðu. Það að skuldir heimilanna séu hóflegar samkvæmt einhverju meðaltali — menn eru alltaf að tala um að þetta sé að jafnaði þegar þeir halda ræður hér um að vera með annan fótinn í heitu vatni og hinn í köldu og þannig séu þeir að meðaltali sæmilega volgir. En þetta er bara svona, við erum alltaf að bera einhverja hluti saman sem standast ekki af því að samanburðurinn nær ekki alla leið.

Jú, þetta er áætlun en mér finnst þessi áætlun ekki endurspegla það sem bíður okkar. Það er búið að gera hérna kjarasamninga sem eftir því sem manni er sagt kosta 80 milljarða. Síðan er það nefnt að það eigi bara að mæta því með aðhaldsaðgerðum. Hvaða aðhaldsaðgerðum? Er verið að færa þetta úr einum vasa yfir í annan? Er verið að bæta í húsnæðisbætur með því að skerða eitthvað annað? Þá er betur heima setið.

Ég líka velti því fyrir mér með þessar aðgerðir, án þess að gera lítið úr þörfinni á því að við þurfum að bæta millifærslukerfin, það skiptir máli að staða barnafjölskyldna sé góð og að staða þeirra sem eru að koma sér upp húsnæði sé góð: Eru þær til þess fallnar að draga úr verðbólgu? Ég átta mig ekki á því að útgjöld eigi að draga úr verðbólgu. Þetta eykur að sjálfsögðu kaupmátt heimilanna, þeirra sem njóta hans. Þau munu fara að eyða meiru. En eins góð og þessi aðgerð er sem tæki til þess að bæta hag fólks sem er í þessari stöðu þá sé ég ekki að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur verið að grípa til til að aðstoða eða hjálpa til við að gera kjarasamninga séu til þess fallnar að draga úr verðbólgu og þar með lækka vexti, sem ég held að hafi verið aðalmarkmið þeirra kjarasamninga sem búið er að skrifa undir.